Fulltrúar embættis sérstaks saksóknara framkvæmdu í morgun húsleit hjá lögmannsstofunni Logos í Efstaleiti. Er húsleitin liður í rannsókn embættisins á meintri markaðsmisnotkun og hugsanlegum auðgunarbrotum vegna kaupa Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi síðastliðið haust.
Í morgun var einnig gerð leit í vefhýsingunni hjá Logos til þess að nálgast ýmis rafræn gögn. Þar voru haldlagðir tölvupóstar og önnur rafræn skjöl, samkvæmt upplýsingum fréttavefjar Morgunblaðsins.
Q Iceland Finance ehf. er eignarhaldsfélag sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani frá Katar, sem er persónulegur vinur Ólafs Ólafssonar. Ólafur hafði milligöngu um kaupin á hlut sjeiksins í Kaupþingi.
Fyrir rúmri viku síðan voru framkvæmdar tólf húsleitir, m.a á heimili og í sumarbústað Ólafs.
Nokkrir einstaklingar hafa fengið stöðu grunaðra í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara.