Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagði í dag að efnahagsbati á evrusvæðinu verði hægur og hvetur til að gripið verði til enn róttækari aðgerða til að blása lífi í brothættan bankageirann.
„Batinn verður hægur og með hvaða hætti hann verður svo og tímasetningar eru mjög á reiki,“ segir í greinargerð sjóðsins eftir viðræður við 16 aðildarríki evrusvæðisins.
Í greinargerðinni kemur fram að aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til hafi orðið til að ná fram stöðugleika í bankakerfinu en að stjórnmálamenn þurfi að grípa til enn frekari aðgerða, sérstaklega í fjármálageiranum.
Bankakerfið standi enn frammi fyrir þrýstingi meðan aðstæður til lánveitinga séu þröngar, fjármagnskostnaður sé áfram hár og ýmsar greinar fjármálamarkaðarins virki illa.
AGS spáði í apríl að hagkerfi Evrópu skreppi saman um 4,2% 2009 og um 0,4 2010.