Krónan hefur ekki verið veikari það sem af er ári. Ástæðan er talin vera háar vaxtagreiðslur til útlendinga í júní, sem getur numið 11 milljörðum króna. Ríkið hefur á móti aukið framboð á verðbréfum sem stendur útlendingunum til boða í stað þess að flytja hagnaðinn úr landi. Kjósi þeir að flytja vaxtagreiðslur úr landi setur það þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar.
Um hádegi hafði gengi krónunnar veikst um 0,8% og stendur gengisvísitalan í 234 stigum. Sterkust var krónan 12. mars síðastliðinn þegar gengisvísitalan stóð í 187 stigum. Síðan þá hefur krónan veikst um 25%. Í byrjun júní stóð gengisvísitalan í 222 stigum.
Ríkið eykur útgáfu verðbréfa
Ríkið reynir að koma til móts við fjárfesta með því að bjóða verðbréf til skemmri tíma og fjármagna rekstur sinn um leið með útgáfu ríkisverðbréfa. Þá geta fjárfestar keypt ríkisskuldabréf fyrir vextina sem þeir fá greidda í stað þess að flýja með peningana úr landi. Stóra spurningin er hversu þolinmóðir þessir fjárfestar eru. Vilja þeir fara strax úr landi með peningana sína, þegar þeim er það heimilt, eða halda áfram að nýta sér hátt vaxtastig á Íslandi? Veiking krónunnar gefur vísbendingar um að hluti þeirra leiti út.
Spurning um þolinmæði fjárfesta
Það er í samræmi við skoðun Seðlabanka Íslands á því hversu þolinmóðir erlendir fjárfestar eru hér með krónurnar sínar og birt var í síðasta hefti Peningamála. Sérfræðingar sem Morgunblaðið hefur talað við telja að Seðlabankinn ofmeti þá upphæð sem er flokkuð sem óþolinmóð.
Um sé að ræða tiltölulega lítið hlutfall af heildareignum þessara útlendinga, sem hafi tíma og styrk til að bíða af sér gjaldeyrishöftin á meðan vaxtaumhverfið brenni þá ekki illa. Eins fullyrða sömu aðilar að áhrifin á krónuna, vegna þessara eigna, séu minni en margir ætli. Hluti af uppgjörum krónueigna í erlendri mynt fari fram hjá erlendum fjármálafyrirtækjum, eins og Deutsche Bank, og hafi ekki mikil áhrif hér á landi.
Vel heppnað útboð ríkisbréfa
Í gær fór fram útboð í nýjum flokki sem er á lokagjalddaga 12. júní 2025. Skuldabréfaflokkurinn er óverðtryggður og ber árlega vexti sem eru greiddir 12. júní. Þátttakan í útboðinu var góð að mati sérfræðinga og felur það í sér ákveðna traustyfirlýsingu á ríkissjóð. Menn telja ríkið geta staðið við skuldbindingar sínar og kjörin sem ríkinu bjóðast endurspegli það.
Einnig voru boðin út bréf í skuldabréfaflokkum sem eru á gjalddaga í desember á næsta ári og í maí 2013. Bréfin á gjalddaga 2025 bera 8% vexti, 7,25% vextir eru á bréfum sem eru á gjalddaga 2013 og 6,20% á bréfunum sem eru á lokagjalddaga 2010.
Mikið magn peninga á lausu
Seðlabankinn tilkynnti í gær að hann muni ekki framlengja útgáfu innstæðubréfa, sem margir erlendir fjárfestar hafa nýtt til að geyma krónur sínar. Heildarupphæð innstæðubréfa, sem eru á gjalddaga 24. júní næstkomandi, er 67 milljarðar króna. Talið er að margir sem þar eiga peninga séu nú að færa sig yfir í ríkisverðbréf. Þeir geta gert það í dag, miðvikudag, samkvæmt reglum Seðlabankans.
Á föstudaginn er ríkisskuldabréfaflokkur, RB09, á gjalddaga. Þar er talið að losni um ríflega 70 milljarða króna sem eru í eigu útlendinga. Þessir peningar, og þeir sem eru í innstæðubréfum, leita nú í ríkisverðbréf. Einnig hafa vextir á innstæðureikningum lækkað verulega undanfarið. Það eykur líkur á því að eigendur peninga, sem geymdir eru í bönkunum, leiti annarra ávöxtunarleiða.
Óvissa um gengi fram í júní
Þangað til ljóst verður hvert peningarnir munu leita í hræringum júnímánaðar veikist krónan vegna væntinga um útflæði gjaldeyris. Hver endanleg áhrif verða er erfitt að segja til um. Það ræðst af því hvernig spádómar markaðarins rýma við raunverulega niðurstöðu. Þvinguð eftirspurn eftir krónunni, vegna gjaldeyrishafta, og aukið framboð á skammtimabréfum ríkissjóði eiga að vinna gegn frekari veikingu.