„Forsetinn hefur aldrei hitt þennan mann og þaðan af síður kynnt hann fyrir Ólafi Ólafssyni. Forsetinn vissi ekki einu sinni að hann væri til fyrr en fréttir af honum komu í fjölmiðlum,“ segir Örnólfur Thorsson forsetaritari um meint samskipti Ólafs Ragnars Grímssonar og sjeiks Mohameds Bin Khalifa Al-Thani, bróður emírsins af Katar.
Vangaveltur um tengsl forsetans við sjeikinn eru ekki óeðlilegar. Í janúar á síðasta ári fór forsetinn í opinbera heimsókn til Katar ásamt Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi iðnaðarráðherra, og áhrifamönnum úr íslensku viðskiptalífi, þ.ám. Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings. Í maí sama ár var forsetinn aftur í Katar á vegum CNN, Fortune og Time vegna umfjöllunar um orkumál. Við það tækifæri færði forsetinn emírnum að gjöf stækkaða mynd af íslenskum fálkum.
Emírinn er fjölkvænismaður og Sheikha Mozah sem er „aðal-eiginkona“ hans er góð vinkona Dorritar Moussaieff forsetafrúar.