Nefnd á vegum breska þingsins hefur komist að þeirri niðurstöðu, að rúmlega milljarður punda af opinberu fé hafi verið settur í „óþarfa hættu" inn á íslenska bankareikninga. Rekja megi þetta til rangra upplýsinga og andvaraleysis innan opinberra stofnana.
Þetta kemur fram í breska blaðinu The Times í dag. Nefnd neðri málstofu breska þingsins, sem fjallar um sveitarstjórnamál, hvatti breska fjármálaeftirlitið til að rannsaka hvers vegna stofnanir fjármálaráðuneytisins, sem veita sveitarstjórnum fjármálaupplýsingar og ráðgjöf, hefðu leyft fjölda sveitarstjórna að fjárfesta hjá íslenskum bönkum þrátt fyrir að matsfyrirtæki hefðu varað við bönkunum.
Fjármálastofnun, sem fjallar um Arlingclose, sagði sveitarstjórninni þar að taka féð út úr íslensku bönkunum þegar árið 2006. En aðrar stofnanir ráðlögðu sveitarstjórnunum að halda áfram að ávaxta fé sitt hjá íslenskum bönkum allt fram á sumarið 2008. Bankarnir féllu allir í október það ár.
Umræddar stofnanir starfa sem óháðir fjármálaráðgjafar gagnvart sveitarstjórnum. En í skýrslunni, sem Times vitnar til, er gefið til kynna að hugsanlega hafi verið um hagsmunaárekstra að ræða milli sveitarstjórnanna og miðlara, sem einnig fengu umboðslaun frá bönkunum.
Áætlað er, að fjármagnstekjur breskra sveitarstjórna hafi numið 1,8 milljarði á árunum 2007-8.