Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á ráðstefnu á vegum norska seðlabankans í Ósló, að Ísland muni líklega enda á evrusvæðinu áður en langt um líður. Þetta kemur fram í frétt Reutersfréttastofunnar.
Reuters hefur einnig eftir Þórarni, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabankans, að hann hafi efasemdir um að verðbólgumarkmið, sem Seðlabankinn miðar nú við, virki sem stjórntæki í peningamálastjórnun á Íslandi.
Þá sagði hann, að sögn Reuters, að hægt sé að draga mikinn lærdóm af fjármálakreppunni á Íslandi. Einn sé, að Íslendingar hefðu ekki átt að taka jafn mikið af erlendum lánum og raun bar vitni. Bætti Þórarinn við, að Seðlabankinn eða Fjármálaeftirlitið hefðu átt að stöðva þessa lántöku. Þess í stað hefðu stjórnvöld í raun hvatt til hennar.