Bankarnir tóku mikla áhættu

Kaarlo Jännäri gagnrýndi mikla áhættu í bankakerfinu.
Kaarlo Jännäri gagnrýndi mikla áhættu í bankakerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Lánveitingar íslensku bankanna til FL Group sýna hversu mikla áhættu bankarnir tóku í útlánum til eins eða tengda aðila. Bara krafa Glitnis á félagið nemur tæpum 72 milljörðum króna. Þetta var ekkert einsdæmi í íslensku bönkunum og eitt af því sem Finnin Kaarlo Jännäri gagnrýndi.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að  kröfur Glitnis á FL Group nema samtals 71,8 milljörðum króna samkvæmt fundargerð til kröfuhafa. Kröfur Nýja Kaupþings á FL nema 41,3 milljörðum króna og Nýi Landsbankinn á 16,3 milljarða kröfu á félagið. Samtals nema kröfur Glitnis og nýju ríkisbankanna á FL Group því rúmlega 129 milljörðum króna.

Fleiri risakröfur

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis,viðurkennir að þetta sé ekki hæsta krafan sem bankinn eigi, beint eða óbeint, á eitt félag eða fyrirtæki. Vitað er um svimandi háa kröfu Glitnis á fjárfestingarfélagið Milestone.

Þegar erlendir lánamarkaðir lokuðust fyrir íslensku fjárfestum seint á árinu 2007 og snemma árið 2008 lentu þeir í vandræðum með fjármögnun. Samtryggingarkerfið innan íslensku bankanna, þar sem stærstu fjárfestarnir voru aðaleigendur, leiddi til þess að bankarnir lentu með mörg félög í fanginu. Þeir fengu það verkefni að redda þessum félögum peningum.

Líflínu kastað

Hluti af lausninni var að gefa út endalaust af skuldabréfum og láta peningamarkaðssjóði bankanna kaupa þau. Þannig, og með frekari lánveitingum, var líflínunni kastað til eigenda félaganna í þeirri von að markaðir myndu opnast aftur. Það átti að halda kerfinu á floti. Það var í þágu allra persóna og leikenda á íslenska fjármálamarkaðnum.

Þetta gerði það að verkum að bankarnir veitti einum eða tengdum aðilum risalán. Þetta gagnrýndi Finninn Kaarlo Jännäri í skýrslu þar sem hann lagði mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi. Ríkisstjórnin óskaði eftir skýrslunni í nóvember á síðasta ári.

Margar stórar áhættuskuldbindingar

Í lok júní á síðasta ári voru stórar áhættur bankanna á einn eða tengda aðila 23 talsins samkvæmt skýrslu Jännäri. Það þýðir að áhættuskuldbinding bankanna á hvern þessara viðskiptavina fór yfir tíu prósent af eiginfjárgrunni þeirra. Samtals námu þessar stóru áhættur í hverjum banka frá 94% til 174% af eiginfjárgrunni.

Í frétt Morgunblaðsins 1. apríl síðastliðinn kemur fram Jännäri finnist það mjög óvenjulegt að bankar á stærð við íslensku viðskiptabankana hafi verið með svo stórar áhættur á einstaka aðila. Að hans mati voru ákvarðanir stjórnenda bankanna að þessu leyti vanhugsaðar. FME hafi verið meðvitað um það og hafið vinnu við að safna ítarlegri upplýsingum um stórar áhættur.

Stærsti hlutinn til eignarhaldsfélaga

Jännäri segir í skýrslunni það sláandi að áhættan er að stærstum hluta bundin við eignarhaldsfélög sem höfðu það meginmarkmið að fjárfesta í hlutabréfum eða öðrum áhættusömum eignum. Í fáum tilvikum var um að ræða fyrirgreiðslu til rekstrarfélaga. Í flestum tilvikum voru veðin í bréfunum sem keypt voru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK