„Ég hafna því alfarið að Baugur hafi verið kominn í greiðsluþrot í mars 2008 og hafi verið gjaldþrota á þeim tíma eins og fullyrt er í fréttinni,“ segir Stefán Hilmarsson, fyrrv. aðstoðarforstjóri Baugs.
Í frétt Viðskiptablaðs Morgunblaðsins í gær um bók Jóns F. Thoroddsens, Íslenska efnahagsundrið, segir að Baugur hafi ekki getað greitt skuldabréf í mars 2008. Þröngur hópur bankamanna hafi vitað að félagið var komið í greiðsluþrot og reynt að semja um afföll á greiðslum.
„Hið rétta er að í lok mars 2008 var bókfært eigið fé Baugs Group um 58,3 milljarðar króna án víkjandi lána og eiginfjárhlutfall félagsins um 19,3%. Handbært fé félagsins nam 10,3 milljörðum kr. á sama tíma,“ segir Stefán.
Hann segir að Baugur hafi staðið frammi fyrir því að skuldabréf að fjárhæð ellefu milljarðar hafi verið á gjalddaga um miðjan mars í fyrra. Vilyrði hafi verið fyrir því frá mörgum eigendum skuldabréfanna að framlengja bréfin gegn greiðslu vaxta af höfuðstóli. Áður en að því kom hafi skuldabréfamarkaðurinn nánast lokast vegna vanskila fasteignafélags sem hafði gefið út skuldabréf. Þá hafi margir kippt að sér höndum.
Stefán segir að samt hafi Baugur greitt sex milljarða króna á gjalddaga en fimm milljarðar voru framlengdir. Félagið hafi greitt upp skuldabréf og víxla fyrir 19 milljarða króna yfir árið.
„Ekki var um það að ræða að farið hefði verið fram á afföll af skuldabréfunum við eigendur þeirra og þeirri fullyrðingu algerlega hafnað sem rangri,“ segir Stefán.