Frystingu eigna Landsbankans í Bretlandi verður aflétt í dag, samkvæmt samkomulaginu við bresk stjórnvöld um Icesave. Skilanefnd Landsbankans fær því eignirnar til umráða og fagnar talsmaður nefndarinnar þeim áfanga. Ekki fæst staðfest hversu mikil verðmæti er um að ræða, en þau eru umtalsverð.
Páll Benediktsson, talsmaður skilanefndar Landsbankans, segir að um margvíslegar eignir hafi verið að ræða. „Og þetta mun auðvelda starfsemi skilanefndarinnar verulega við að sinna sínu hlutverki, þ.e. að ná sem mestum verðmætum út úr þeim eignum sem voru í bankanum.“
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í grein sem birt var í
Morgunblaðinu 9. júní sl. að m.a. myndu losna um 200 milljónir
punda, sem sitja inni vaxtalausum reikningi í Englandsbanka (Bank of England). Hún sagði einnig að þau verðmæti verði fljótlega greidd til forgangskröfuhafa, m.a. til lækkunar á láninu til Íslands um tugi milljarða króna. Páll bendir á að ýmsar eignir séu í safninu sem nauðsynlegt sé að leggjast yfir og skoða. „Þetta fer inn í þá heildarvinnu sem skilanefndin annast. [...] En með hvaða hætti þessar eignir losna og koma í greiðslur er ekki hægt að segja um á þessu stigi.“