Fjármálaeftirlitið segir, að enn hafi reynst nauðsynlegt að fresta endanlegu uppgjöri á milli nýju bankanna og gömlu bankanna. Uppgjörinu hefur verið frestað nokkrum sinnum en samkvæmt ákvörðun sem stofnunin tók í maí átti það að liggja fyrir í dag. Nú hefur því verið frestað til 17. júlí.
Fjármálaeftirlitið segir, að nú standi yfir viðræður milli eiganda nýju bankanna og skilanefnda gömlu bankanna um endanlegt uppgjör þeirra á milli. Ljóst sé, að tíma þurfi til að ganga frá endanlegum skilmálum fjármálagerningsins á milli aðila vegna umfangs og eðlis uppgjörsins.
Í því sambandi sé mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar fái tækifæri til að kynna sér þau gögn og þær upplýsingar sem liggja fyrir, þ.m.t. skýrslur varðandi mat á þeim eignum sem ráðstafað var. Þá sé jafnframt mikilvægt að horfa til þess að nýju bankarnir hafi þegar hafið starfsemi og brýnt sé að staða þeirra vegna uppgjörsins verði skýr og að forsendur efnahagsreiknings liggi fyrir sem fyrst.
Af þeim ástæðum hefur Fjármálaeftirlitið ákveðið að skilmálar fjármálagernings um uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda gömlu bankanna til nýju bankana skulu liggja fyrir af hálfu aðila eigi síðar en 17. júlí