Heildarvirði útistandandi svonefndra jöklabréfa hefur minnkað hratt að undanförnu en frá áramótum hafa jöklabréf að nafnvirði tæplega 170 milljarðar króna fallið á gjalddaga. Þessu til viðbótar er á morgun gjalddagi á 4 milljarða króna jöklabréfi sem gefið var út af Rentenbank, sem er eins konar lánastofnun landbúnaðarins í Þýskalandi.
Fram kemur í Hagsjá Landsbankans, að þá verði aðeins rúmlega 80 milljarða króna jöklabréf enn útistandandi, en til samanburðar voru alls útistandandi jöklabréf að andvirði yfir 450 milljarðar króna þegar mest var haustið 2007.
Hagdeild Landsbankans segir, að vegna takmarkana á fjármagnsflutningum sé þó ljóst, að stærstur hluti þeirra höfuðstólsgreiðslna, sem fallið hafi til frá því í haust, hafi ekki verið fluttur úr landi. Að auki hafi Seðlabankinn nýlega birt túlkun þess efnis að ekki sé heldur heimilt, að skipta vaxtagreiðslum af jöklabréfum, þ.e. erlendum skuldabréfum sem gefin eru út af erlendum aðilum í krónum, yfir í erlendan gjaldeyri. Þetta fé hafi því þurft að leita í aðra innlenda ávöxtun, svo sem ríkisskuldabréf, víxla eða innlán.