Greining Íslandsbanka spáir því, að vísitala neysluverðs hækki um 0,7% milli maí og júní. Gangi sú spá eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 11,4%, en í maí mældist verðbólgan 11,6%.
Hagstofa Íslands birtir vísitölu neysluverðs í júní þann 24. júní næstkomandi. Íslandsbanki segir, að hækkun opinberra gjalda á áfengi og tóbak, verðhækkun á eldsneyti og áhrif af gengislækkun krónu undanfarna mánuði séu helstu áhrifaþættir í hækkun vísitölunar nú en lækkun húsnæðisverðs vegi á móti.
Íslandsbanki segir, að það sem eftir lifi sumars muni litlar breytingar verða á vísitölu neysluverðs, gangi spá okkar eftir. Útsölur í júlí og ágúst, ásamt áframhaldandi lækkun íbúðaverðs, muni þar vega gegn áhrifum af framangreindri hækkun eldsneytisskatta og frekari áhrifum af veiku gengi krónu. Annar innlendur verðbólguþrýstingur verði lítill enda mikill slaki á vinnumarkaði og ýmis annar innlendur kostnaður ýmist standi í stað eða lækkar. Verðbólgan gæti því verið komin undir 10% í sumarlok.
Bankinn spáir allhraðri hjöðnun verðbólgunnar eftir því sem miklir hækkunarmánuðir vísitölu detti út úr 12 mánaða verðbólgumælingunni. Verðbólga í árslok verði því nærri 4% ef spá bankans gangi eftir.