Paul Rawkins, framkvæmdastjóri hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Fitch í Lundúnum, segir að ástæða þess að fyrirtækið hafi ekki afskrifað lánshæfi Íslands sé sú að landið hafi ekki virt að vettugi erlendar skuldbindingar sínar.
Ef ekki tekst að stoppa upp í fjárlagagat ríkissjóðs gæti það stefnt í hættu öðrum hluta lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til Íslands. Paul Rawkins segir að ekki sé skortur á pólitískum vilja til að gera það sem þurfa þykir.
Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Rawkins að þvert á móti sé ríkisstjórn Íslands mjög áhugasöm um að framfylgja áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fitch metur lánshæfi ríkissjóðs BBB- með neikvæðum horfum, sem er aðeins einu þrepi fyrir ofan lágmarkseinkunn sem gefin er. „Skuldir hins opinbera hafa aukist nokkuð hratt og kostnaður vegna endurskipulagningu bankakerfisins gefur fyrirheit um að þær muni aukast enn frekar,“ segir Rawkins. Hann segir að Fitch muni bíða eftir því að þessi mál verði kláruð áður en fyrirtækið ljúki við útgáfu lánshæfiseinkunnar fyrir íslenska ríkið.
Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í frétt Bloomberg að niðurskurðurinn verði víðtækur. Fjárlagahallinn verði 177 milljarðar króna í ár sem samsvarar 12,6 prósent af vergri þjóðarframleiðslu landsins.
Það versta hefur þegar gerst á Íslandi
„Það versta sem gat gerst hefur nú þegar gerst á Íslandi. Bankakerfið hefur hrunið, gjaldmiðillinn hefur farið á hliðina og efnahagurinn stefnir hraðbyr að djúpstæðri kreppu,“ segir Rawkins.
Rawkins segir að Fitch hafi ekki afskrifað lánshæfi Íslands því landið hafi ekki enn vanrækt erlendar skuldbindingar sínar (e. default).
Rawkins víkur að gjaldeyrishöftunum sem komið var á síðastliðið haust, en vegna þeirra sitja 700 milljarðar króna í eigu útlendinga fastir í íslensku hagkerfi. „Því fyrr sem losað er um gjaldeyrishöftin því betra,“ segir Rawkins. Hann segir að sá tími muni koma að þjóðin þurfi aðgang að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.
Markmiðið Seðlabanka Íslands er stigvaxandi losun gjaldeyrishafta innan tveggja ára. Rawkins segir að það sé raunhæft markmið að losa höftin árið 2010. „Ég sé ekki fyrir mér að efnahagurinn [á Íslandi] sýni batamerki fyrr en í upphafi árs 2010,“ segir hann.