Fjármálaeftirlitið hefur kært stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar (LSK) til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna gruns um brot á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og einnig vegna meintra brota á almennum hegningarlögum.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.
Hið meinta hegningarlagabrot lýtur að því að stjórn lífeyrissjóðsins hafi gefið FME rangar upplýsingar um stöðu lífeyrissjóðsins gagnvart bænum.
„Þeir fengu frest til þess að bæta úr lántökum sveitarfélagsins hjá sjóðnum þannig að þær rúmuðust innan heimilda. Þeir veittu síðan upplýsingar um að það hefði verið gert en það reyndist ekki vera rétt," segir Helgi Magnús. Stjórn lífeyrissjóðsins sendi fyrr í dag yfirlýsingu þar sem hún lýsir furðu sinni á „hörðum aðgerðum" Fjármálaeftirlitsins (FME) og fjármálaráðuneytisins gegn stjórn sjóðsins en fyrr í dag var stjórn sjóðsins og framkvæmdastjóra vikið tímabundið frá.
Elín Jónsdóttir, lögfræðingur, var skipaður umsjónarmaður með rekstri sjóðsins til tveggja mánaða vegna gruns um að ákvarðanir um fjárfestingar hafi ekki verið í samræmi við lög. Áður en tekin var ákvörðun um að skipa umsjónarmann hafði ítrekuðum kröfum FME um úrbætur ekki verið sinnt. Málið snýst m.a. um kaup lífeyrissjóðsins á skuldabréfi sem Kópavogsbær gaf út. Með því gat bærinn fjármagnað sig að hluta gegnum lífeyrissjóðinn en í stjórn hans sitja m.a. kjörnir fulltrúar bæjarins. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, er formaður stjórnar lífeyrissjóðsins.
Flosi Eiríksson, stjórnarmaður í LFK, sagði í samtali við mbl.is í dag að stjórnin hefði talið sig vera að upplýsa FME á öllum stigum málsins. Þess vegna hafi tímabundin frávikning stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins, sem tilkynnt var um fyrr í dag, komið á óvart. „Við höfum gert FME viðvart af fyrra bragði ef við höfum talið að eitthvað sé ekki í samræmi. [...] Stjórnin hefur tekið þátt í þessu á öllum stigum,“ sagði Flosi.
Að sögn Helga Magnúsar lýtur málið ekki aðeins að svokölluðu verðtryggðu skuldabréfi sem bærinn hafi selt lífeyrissjóðnum heldur beinum lánveitingum, m.a svokölluðu „peningamarkaðsláni“ til bæjarins. „Þetta snýst um það að þeir hafi verið að lána bænum með ólögmætum hætti,“ segir Helgi Magnús.
Auk Gunnars og Flosa sitja í stjórn lífeyrissjóðsins Sigrún Guðmundsdóttir, Jón Júlíusson og Ómar Stefánsson.