Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í maí frá fyrra mánuði. Þetta er niðurstaða mælinga Fasteignaskrár Íslands á vísitölu íbúðaverðs. Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um 7%. Síðastliðna sex mánuði hefur vísitalan hins vegar lækkað um 10,3% og um 10,5% síðastliðna tólf mánuði.
Vísitala íbúðaverðs sýnir breytingar á vegnu meðaltali á nafnverði á fermetra í íbúðahúsnæði. Að teknu tilliti til verðbólgu hefur íbúðaverðið lækkað enn meira, eða um liðlega 20%, sem er þá raunverðslækkun á íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna tólf mánuði.
Vísitala íbúðaverðs náði hámarki í árslok 2007. Síðan þá hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 13% að nafnvirði. Raunlækkunin á sama tíma er um 28%.
Makaskipti ekki með
Lítil velta á fasteignamarkaði og aukinn hlutur makaskiptasamninga í fasteignaviðskiptunum gerir að verkum að mælingar á vísitölu íbúðaverðs verða erfiðari en áður. Samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá Íslands hafa makaskiptasamningar hins vegar ekki verið teknir með í útreikningum á vísitölu íbúðaverðs undanfarna mánuði. Telur stofnunin því að vísitalan sýni eins rétta mynd af þróun fermetraverðs íbúðarhúsnæðis og aðstæður gefa tilefni til. Fækkun samninga á undanförnum mánuðum skapar hins vegar ákveðna óvissu í mælingum.