Hagstæð ákvæði Icesave

Jakob R. Möller.
Jakob R. Möller. mbl.is/G.Rúnar

Jakob R. Möller, hæstaréttarlögmaður, segir í álitsgerð sem hann vann fyrir utanríkisráðuneytið vegna Icesave-samkomulagsins að ákvæði um endurskoðun samningsins séu íslenska ríkinu hagstæð. Jafnframt séu eignir íslenska ríkisins erlendis ekki aðfararhæfar.

Jakobs segir í álitsgerðinni að að af hálfu íslenska ríkisins hafi ítrekað verið sagt að Ísland myndi standa við skuldbindingar sínar án þess að tiltekið væri nákvæmlega hverjar þessar skuldbindingar væru. Hann víkur að greinum Stefáns Más Stefánssonar, prófessors og Lárusar Blöndal hrl, þar sem þeir hafa rökstutt að samkvæmt Evrópurétti hafi íslenska ríkið fullnægt skyldu sinni með því að koma Tryggingarsjóði innstæðueigenda sem slíkum á laggirnar. „[Ég] tel þessa afstöðu í sjálfu sér ekki skipta máli eftir að íslenska ríkið lýsti strax á síðasta hausti að greitt yrði í samræmi við það sem greint er að ofan,“ segir Jakob.

Pattstaða
Jakob víkur að því að honum hafi verið tjáð að samninganefnd íslenska ríkisins hafi haldið uppi sams konar sjónarmiðum og þeir Lárus og Stefán. Innan EES hafi þau sjónarmið engan hljómgrunn fengið, hvorki á meðal viðsemjanda né annarra ríkja, þar á meðal Norðurlanda. „Mér er tjáð að komin hafi verið upp pattstaða sem skipti Stóra-Bretland litlu fjárhagsmáli. Á meðan pattstaðan væri uppi, hefði Ísland í reynd verið talið einangrað frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Stóra-Bretland og Holland munu hafa þvertekið fyrir að fara með málið fyrir dómstóla eða gerðardóm,“ segir Jakob. Áhyggjur af bankakerfi og aðrir slíkir hagsmunir voru taldir skipta Breta mun meira máli.

Um samningana
Jakob segir að samningarnir við Breta og Hollendinga komi sér að mestu fyrir sjónir sem keimlíkir alþjóðlegum lánasamningnum með jafngildi sjálfskuldarábyrgðar, þeir séu þó mun styttri en hefðbundnir lánasamningar milli fyrirtækja.

Í samningunum eru mikilvæg ákvæði sem heimila greiðslur fyrir gjalddaga að hluta eða öllu leyti og þar með niðurgreiðslu á höfuðstól, með þriggja daga fyrirvara. Þetta er hagkvæmari lántaka en almennt gerist í lánasamningum, að mati Jakobs.

Að mati lögmannsins eru eignir ríkisins erlendis ekki aðfararhæfar, nema því aðeins að um sé að ræða sambærilega eign og einkaaðili á, t.d. fyrirtæki sem rekið er í nafni íslenska ríkisins. „Eignir ríkis sem sæta að öðru leyti einkaréttarlegum lagaákvæðum yrðu ekki undanþegnar lögsókn eða aðför, ef þeim mætti jafna fullkomlega til starfsemi einkaaðila og væru ekki taldar á neinn hátt til starfsemi sem ríki samkvæmt eðli sínu stundar. Hér mætti taka dæmi, sem ekki er sérlega fjarlægt þessi misserin: Ætti íslenska ríkið t.d verslun í Regent Street í London, sem það hefði komist yfir við gjaldþrotaskipti fyrri eiganda og héldi ríkið áfram verslunarrekstrinum í eigin nafni, leiddi friðhelgi fullvalda ríkis ekki til þess að þessi verslun eða ríkið sjálft gæti borið fyrir sig að óheimilt væri að gera aðför í þessari eign,“ segir Jakob.

Af þessu leiðir að sendiráð njóta t.d. fullkominnar verndar. Sama gildir um allar eignir Seðlabanka Íslands bæði innanlands og utan. Innlendar eignir ríkisins eru ekki aðfararhæfar, nema þá þær eignir sem eru ,,öldungis sambærilegar við samskonar eignir einkaaðila,” segir Jakob.

Vanefndarákvæði eða gjaldfellingarákvæði, ef til þess kemur að íslenska ríkið eða stjórnarstofnun undir ríkis eða ráðherravaldi, standi ekki skil á greiðslum, eru að mati lögmannsins sambærileg við ákvæði í ýmsum öðrum lánasamningum sem íslenska ríkið hefur gert undanfarinn ár og áratugi.

Þá segir Jakob að vaxtakjörin séu ekki tiltakanlega há miðað við að um fimmtán ára lánasamnings sé að ræða.

Um samninginn gilda bresk lög og er það venja í alþjóðlegum samningum segir Jakob í áliti sínu, að lánasamningar séu háðir lögum lands lánveitenda og undir lögsögu dómstóla í heimaríki hans. Jakob segir að heppilegast hefði vafalaust verið fyrir alla aðila að alþjóðlegur gerðardómur hefði fengið lögsögu í málum sem varða lausn ágreinings sem kynni að rísa. Jakob segir að sér hafi verið sagt að af hálfu íslensku samninganefndarinnar hafi verið fast sótt á um að lögsaga yrði falin gerðardómi vegna hugsanlegs ágreinings vegna samningsins, en viðsemjendur hefðu ekki gefið kost á slíku.

Þykir „grábölvað“
Í lokaorðum álitsins segir Jakob að sér þyki „grábölvað“ að íslenska ríkið skuli hafa talið sig nauðbeygt til þess að gera samningana. „Þó er afleitt að skamma þá sem reyna að afstýra vanda sem aðrir hafa valdið og láta þá sem freista að afstýra sitja á sakamannabekk. Mér hefur orðið ljóst að ýmislegt sem fram hefur komið í opinberri umræðu um samningana er í ætt við systur þekkingar- og skilningsleysi. Lítt hefur í mörgum tilvikum verið gætt að þeim kröfum sem gera verður til þeirra sem gefa í skyn að þeir hafi sérfræðiþekkingu á viðkomandi efni,“ segir Jakob.

Lögfræðiálit Jakobs R. Möller

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK