Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, spáir því að atvinnuleysi hér á landi verði 9,9% á næsta ári og aukist því enn frekar frá því sem nú er. Hins vegar spáir stofnunin því jafnframt, að verðbólga fari niður í 2,4% árið 2010 en 12 mánaða verðbólga er nú 12,2% samkvæmt nýrri mælingu Hagstofunnar.
Þá gerir OECD ráð fyrir því að verg landsframleiðsla dragist saman um 7% á þessu ári á grundvelli markaðsverðs og um 0,8% á því næsta.
Í umfjöllun um Ísland í nýrri skýrslu OECD um útlit í efnahagsmálum heimsins, segir að reikna megi með því að íslenska hagkerfið muni halda áfram að dragast saman þar til í lok þessa árs en bati hefjist á næsta ári. Þann efnahagsbata megi að verulegu leyti rekja til aukinnar fjárfestingar í stóriðju, nýs jafnvægis í innlendri eftirspurn og einhvers bata á mörkuðum fyrir íslenskar útflutningsafurðir.
Vegna viðsnúnings í vöruskiptum ætti jafnvægi að nást á viðskiptajöfnuði á næsta ári þrátt fyrir miklar skuldir. Þá spáir OECD því, að stýrivextir Seðlabankans fari í 7% á næsta ári en þeir eru nú 12%. Stofnunin segir hins vegar, að stýrivextirnir hafi lítil áhrif vegna þess, að íslenska fjármálakerfið sé nánast óvirkt. Afar erfitt sé fyrir fyrirtæki að fá fjármögnun hjá nýju bönkunum eða á erlendum lánsfjármörkuðum enda geri gjaldeyrishöftin slíkt erfitt. Gert sé ráð fyrir að þetta ástand hafi skánað á næsta ári.
Helstu óvissuþættirnir í þessari spá eru, að mati OECD, að það kunni að taka lengri tíma en ráð sé fyrir gert, að fá íslenska fjármálakerfið til að virka. Það muni aftur seinka því að innlend eftirspurn nái sér á strik. Einnig kunni kostnaður við endurreisn bankakerfisins að vera meiri en nú sé áætlað.
Hins vegar kunni hinn afar sveigjanlegi vinnumarkaður á Íslandi að stuðla að hraðari efnahagsbata en spár geri nú ráð fyrir. Segir OECD að þessi sveigjanleiki sjáist nú best í því hve raunlaun hafa lækkað hratt á undanförnum mánuðum.
OECD segir, að endurreisn bankakerfisins sé forgangsmál á Íslandi. Ljúka verði endurfjármögnun nýju bankanna hratt svo eðlileg lánastarfsemi geti hafist að nýju. Þá muni afnám gjaldeyrishaftanna auka aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum.
Mikill niðurskurður í ríkisfjármálum skapi tækifæri til að bæta skilvirkni þeirra en muni einnig hafa í för með sér skattahækkanir og minnkandi útgjöld ríkissjóðs.