Evrópski seðlabankinn hefur ákveðið að ráðast í langtum stærstu fjárinnspýtingu frá upphafi: Hann ætlar að veita viðskiptabönkum í aðildarlöndum lausafjárfyrirgreiðslu að verðmæti um 80 billjón (þúsundir milljarða) króna eða 442 milljarða evra. Þetta kemur fram í vefriti hagfræðideildar Landsbankans.
Með þessu ætlar bankinn að reyna að örva útlán banka til fyrirtækja og einstaklinga og vinna þar með gegn samdrætti á evrusvæðinu.
Innspýtingin jafngildir því að bankinn nær tvöfaldi núverandi fyrirgreiðslu í kerfinu, þar sem hún mun vaxa um 70% og nemur fjárhæðin um 5% af landsframleiðslu aðildarríkjanna, segir hagfræðideildin.
Búist er við að ríflega ellefu hundruð bankar muni nýta sér fyrirgreiðsluna. Í boði eru lán til eins árs með 1% vöxtum.
„Mikla spurn eftir þessum lánum má rekja til þess að markaðsaðilar búast nú við því að vextir fari að stíga upp á við á evrusvæðinu og er hér því um að ræða gott tækifæri til að fjármagna banka á undragóðum kjörum,“ segir hagfræðideildin.
Evrópski seðlabankinn varaði við því í síðustu viku, að bankar á evrusvæðinu þyrftu á næstu 18 mánuðum að afskrifa um 200 milljarða evra umfram það sem þegar hefur verið afskrifað.
Í kjölfar falls Lehman-bankans síðastliðið haust jók ECB mikið laust fé í kerfinu en þá sátu viðskiptabankarnir á fjármunum þar sem áhættufælni var í hæstu hæðum um alla álfuna.
Þannig bar lausafjárfyrirgreiðslan ekki þann tilætlaða árangur að auka útlán og örva hagvöxt. Búast má við að tímasetning þessarar afdráttarlausu aðgerðar sé miðuð við það að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig, segir hagfræðideildin. helgivifill@mbl.is