Kröfuhafar Sparisjóðs Mýrarsýslu (SPM) munu eignast 2,5 til 3 prósenta hlut í Nýja Kaupþingi ef nauðamningar verða samþykktir. Á meðal þeirra eru þrír þýskir bankar.
Þann 27. mars samþykktu stærstu kröfuhafar SPM tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu hans. Á grundvelli þess samkomulags seldi SPM allar eignir sínar til Nýja Kaupþings, en þær eru fyrst og fremst innlán og eignarhald á minni sparisjóðum víðsvegar á landinu sem SPM hafði tekið yfir á undanförnum árum. Nýja Kaupþing átti síðan að greiða fyrir það með hlutafé í sjálfum sér og útgáfu skuldabréfs fyrir það sem upp á vantaði.
Heimildir Morgunblaðsins herma að gert sé ráð fyrir að kröfuhafarnir fái um 65 prósent krafna sinna greiddar miðað við þessa framsetningu.