Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody's segir í nýrri skýrslu um íslenska bankakerfið, að horfur fyrir lánshæfismat séu enn neikvæðar sem endurspegli þau miklu verkefni, sem enn þurfi að vinna í tengslum við endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Fram kemur á heimasíðu Moody's, að yfirlýsing um neikvæðar horfur lýsi skoðun stofnunarinnar á því hvaða þróun sé líkleg næstu 12-18 mánuðum. Hins vegar sé ekki um að ræða spá um líklegar breytingar á lánshæfismatseinkunnum.
Moody's segir að lánaumhverfið á Íslandi hafi veikst til muna eins og sjáist af fjölda gjaldþrota fyrirtækja það sem af er árinu. Einnig hafi staða íslenskra heimila versnað vegna vaxandi atvinnuleysis, lækkandi fasteignaverðs og gengislækkunar krónunnar. Þess vegna megi búast við umtalsverðri aukningu á vanskilum á næstunni.
Moody's segir, að allt íslenska bankakerfið sé nú í raun í eigu ríkisins. Allar innlendar eignir bankanna hafi verið fluttar í nýja banka, sem ríkið stofnaði en erlendar skuldbindingar voru skildar eftir í gömlu bönkunum. Með tímanum muni nýju bankarnir gefa út skuldabréf eða önnur verðbréf til gömlu bankanna
„Án efa mun næsta lykilverkefni íslenska bankakerfisins verða að ljúka endanlegu uppgjöri á milli nýju bankanna og gömlu bankanna og endurskipuleggja bankakerfið svo það geti öðlist traust á ný, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi," segir Kimmo Rama, aðstoðarforstjóri Moody's í tilkynningunni.