Norski kaupsýslumaðurinn Kjell Inge Røkke og kona hans, Anne Grete Eidsvig, fá greiddar yfir 440 milljónir norskra króna, nærri 9 milljarða íslenskra króna, út úr fjárfestingarfélagi sínu, The Resource Group TRG.
Fram kemur á viðskiptavefnum e24.no, að þetta gerist með því að eigið fé félagsins verði lækkað. Þetta kemur fram í ársreikningi TRG fyrir síðasta ár.
Røkkehjónin eru að byggja sér mikið glæsihús á Konglunden í Askar skammt frá Ósló. Áður en byggingarframkvæmdirnar hófust hafði Røkke eytt 45 milljónum norskra króna í að kaupa þrjú gömul hús, sem síðan voru rifin til að rýma fyrir nýja húsinu.