Forsetinn útilokar ekki aðstoð

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, emírinn af Katar og Össur Skarphéðinsson.
Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, emírinn af Katar og Össur Skarphéðinsson.

„Við svörum aldrei spurningum í viðtengingarhætti,“ sagði starfsmaður embættis forseta Íslands þegar reynt var að fá svör við því hvort embættið myndi brúa bilið í samskiptum Katar og Íslands ef embætti sérstaks saksóknara færi þess á leit við embættið.

Sem kunnugt er vinnur embætti sérstaks saksóknara að því að boða sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani til yfirheyrslu í tengslum við rannsókn á hlutabréfakaupum hans í Kaupþingi rétt fyrir bankahrunið. Grunur leikur á að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða sem varði hugsanlega markaðsmisnotkun í lögum um verðbréfaviðskipti. Einnig er verið að rannsaka hvort viðskiptin varði auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Þau svör bárust samt frá embætti forsetans að afstaða yrði tekin þegar og ef slík beiðni um aðstoð kæmi. „Ef embættið [sérstakur saksóknari] leitar til okkar tökum við afstöðu til þess þegar embættið leitar til okkar."

Nauðsynlegur vitnisburður
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er vitnisburður Al-Thanis talinn nauðsynlegur til að varpa frekara ljósi á málavexti. Íslenska ríkið hefur ekki boð- og löggæsluvald í öðrum löndum og því þarf að fylgja viðurkenndum samskiptareglum. Beiðni um yfirheyrslu fer í gegnum svokallaða gagnkvæma réttaraðstoð við meðferð sakamála milli landa (e. mutual assistance). Stjórnvöld í Katar taka síðan sjálfstæða ákvörðun um hvernig fara skuli með beiðni embættis sérstaks saksóknara, en málið varðar bróður valdamesta manns landsins.

Í janúar á síðasta ári fór Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í opinbera heimsókn til Katar ásamt Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi iðnaðarráðherra, og áhrifamönnum úr íslensku viðskiptalífi, þ.ám. Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings. Í maí sama ár var forsetinn aftur í Katar á vegum CNN, Fortune og Time vegna umfjöllunar um orkumál. Við það tækifæri færði forsetinn emírnum að gjöf stækkaða mynd af íslenskum fálkum.

Emírinn af Katar er fjölkvænismaður og Sheikha Mozah sem er „aðal-eiginkona“ hans er góð vinkona Dorritar Moussaieff forsetafrúar.

sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani.
sjeik Mohamed Bin Khalifa Al-Thani.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka