Helgi Sigurðsson, yfirlögfræðingur Nýja Kaupþings, hefur sagt starfi sínu lausu hjá bankanum frá og með deginum í dag „í því skyni að skapa frið um bankann og enduruppbyggingu hans,“ að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.
Töluvert hefur verið fjallað um aðkomu Helga Sigurðssonar að kaupréttarsamningum starfsmanna gamla Kaupþings. Fram kom m.a. í DV í dag, að Helgi hefði í júní 2006 skuldað bankanum 449 milljónir króna vegna hlutabréfakaupa. Helgi segist í samtali við blaðið hafa gefið stjórn bankans grænt ljós á það í september, að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna út af lánveitingum frá bankanum vegna kaupa á hlutabréfum.
Nýja Kaupþing vill koma eftirfarandi á framfæri vegna þessa máls:
Stjórn Nýja Kaupþings fór fram á lögfræðiálit frá tveimur utanaðkomandi lögfræðingum þeim, Viðari Má Matthíassyni lagaprófessor og Herði Felix Harðarsyni hrl., til að meta lögmæti ákvörðunar gamla Kaupþings. Samkvæmt álitum þeirra hefur stjórn Nýja Kaupþings ekki heimild til að rifta ákvörðun stjórnar gamla bankans. Stjórn Nýja Kaupþings ætlar hins vegar ekki að afskrifa lán til starfsmanna vegna hlutabréfakaupa á meðan kæra hluthafa vegna lánanna er til meðferðar hjá sérstökum saksóknara.Helgi Sigurðsson hefur ekki tekið þátt í störfum núverandi stjórnar þegar starfsmannalán hafa verið rædd og sat ekki fundi þar sem ákvarðanir um þau voru teknar. Stjórn og starfsfólk Nýja Kaupþings þakkar Helga Sigurðssyni vel unnin störf.
Helgi hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins:
Í ljósi síendurtekinnar og villandi umræðu um aðkomu mína að ákvörðun um lán til starfsmanna gamla Kaupþings banka, tel ég ljóst að ekki geti skapast sá friður um störf mín fyrir bankann sem nauðsynlegt er. Ég hef því ákveðið að segja starfi mínu lausu frá og með deginum í dag.
Ég hef notið þeirra forréttinda að starfa fyrir Kaupþing næsta óslitið síðan 1989 með frábærum samstarfsmönnum. Frá árinu 2002 hef ég verið yfirmaður lögfræðisviðs og ábyrgur fyrir þeim álitum sem sviðið hefur gefið stjórn bankans. Þar á meðal hvort stjórn bankans væri heimilt að fella niður persónulega ábyrgð á lánveitingum til starfsmanna í september sl. Sú niðurstaða að stjórn bankans hefði lögformlegar heimildir til að fella niður persónulega ábyrgð var í samræmi við ákvörðun hluthafafundar í ársbyrjun 2004 um að starfsmenn bæru ekki fjárhagslega áhættu af kaupum á hlutafé í bankanum. Þessi stefna bankans hafði jafnframt verið kynnt Fjármálaeftirlitinu í árslok 2003. Á sama hátt og stjórn bankans setti einhliða á takmarkaðar persónulegar ábyrgðir árið 2005 var það álit lögfræðisviðs Kaupþings að hún gæti fellt þá ábyrgð niður með sama hætti. Tvö lögfræðiálit sem stjórn Nýja Kaupþings hefur látið vinna fyrir sig, frá Viðari Má Matthíassyni prófessor og Herði Felix Harðarsyni, hrl. styðja það álit.
Ég hef ekki komið að ákvörðun stjórnar Nýja Kaupþings um hvernig hún fer með þessi lán sem flutt voru yfir frá gamla bankanum. Ég vil óska núverandi og fyrrverandi samstarfsmönnum mínum gæfu og góðs gengis.