Vanhæfi Helga breytir ekki lögmæti

Forstöðumaður lögfræðisviðs skuldaði bankanum tæplega 450 milljónir króna.
Forstöðumaður lögfræðisviðs skuldaði bankanum tæplega 450 milljónir króna. mbl.is/Golli

Það að Helgi Sigurðsson, forstöðumaður lögfræðisviðs Kaupþings, hafi sjálfur haft beinna hagsmuna að gæta þegar stjórn bankans felldi niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna hinn 25. september síðastliðinn hefur ekki áhrif á lögmæti ákvörðunarinnar þar sem um almenningshlutafélag var að ræða.

Öðruvísi hefði horft við ef um stjórnvald væri að ræða en þá hefðu hæfisreglur sennilega tekið til aðildar Helga að málinu.

Út frá almennum mælikvörðum var Helgi mögulega vanhæfur til að taka ákvörðun um niðurfellingu lána þegar hann hafði sjálfur beinna hagsmuna að gæta. Hins vegar var Kaupþing almenningshlutafélag og stjórn bankans var æðsta ákvörðunarvald bankans milli aðalfunda.

Fram kemur í úttekt Inga Freys Vilhjálmssonar í DV í dag að Helgi Sigurðsson hafi skuldað Kaupþingi 449,5 milljónir króna sumarið 2006 vegna lána sam hann hafði fengið til hlutabréfakaupa í bankanum.

Ber ábyrgð á öllu sem frá lögfræðisviði kemur
Helgi, sem er yfirlögfræðingur Nýja Kaupþings og einn fárra yfirmanna úr gamla bankanum sem enn eru við stjórnvölinn í þeim nýja, gaf stjórn bankans grænt ljós á þá ákvörðun að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna í september 2008. Haft er eftir honum í DV í dag að stjórnin hafi viljað fullvissa sig um að hún væri að taka ákvörðun sem væri lögum samkvæm. Hann rökstyður mál sitt þannig að aðrir sérfræðingar bankans hafi unnið álitið því hann sé ekki helsti sérfræðingur bankans í félagarétti, en hann beri vissulega ábyrgð á öllu því sem komi frá lögfræðisviði bankans.

Lögfræðingarnir Viðar Már Matthíasson, prófessor við HÍ, og Hörður Felix Harðarson, hæstaréttarlögmaður, komust að sömu niðurstöðu og Helgi, þ.e að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar þeirra starfsmanna Kaupþings sem í hlut áttu væri lögmæt. Þess má geta að Hörður Felix var yfirlögfræðingur hjá Glitni fyrir bankahrunið en svipuð álitaefni komu til kasta stjórnar Glitnis.  

Helgi Sigurðsson var upptekinn þegar blaðamaður reyndi að ná tali af honum fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK