Dræm mæting var á hluthafafundi Eimskipafélagsins, sé miðað við höfðatölu. Þar var tilkynnt að skipafélagið hefði sokkið, enda drekkhlaðið skuldum. Enginn hluthafi steig í pontu og bölvaði slæmum ákvörðunum í rekstrinum sem lauk með því að hlutaféð var þurrkað út.
Hluthafarnir eiga ekkert í félaginu lengur. Saga Eimskipafélagsins mun hinsvegar halda áfram, starfsfólki til mikils léttis og lánardrottnar fá þar með eitthvað fyrir sinn snúð. Stefnt er að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu í haust.
Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að ekki yrði gripið til uppsagna, aftur á móti yrði ráðist í skipulagsbreytingar.