Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 12%. Er þetta í takt við væntingar markaðarins en Greining Íslandsbanka, hagfræðideild Landsbankans og IFS Greining spáðu óbreyttum vöxtum.
Bloomberg
hafði eftir Franek Rozwadowski, talsmanni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), í
gær að Seðlabanki Íslands ætti að láta stýrivexti standa í stað til að styðja
við krónuna og styrkja gengi hennar. Tveir af þremur hagfræðingum sem Bloomberg leitaði til taldi að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum á meðan einn taldi að þeir yrðu lækkaðir í 11%.
Aðrir vextir Seðlabankans eru einnig óbreyttir. Vextir á viðskiptareikningum í Seðlabankanum eru þannig áfram 9,5%. Klukkan 11 í dag mun seðlabankastjóri fara yfir ákvörðun peningastefnunefndar og svara spurningum fréttamanna. Fundurinn verður sendur út beint á vef Seðlabankans.
Væntingar um lækkun stýrivaxta Seðlabankans hafa verið miklar að undanförnu, ekki hvað síst af hálfu aðila vinnumarkaðarins, jafnt talsmanna atvinnurekenda sem verkalýðshreyfingarinnar. Frá síðasta vaxtaákvörðunardegi, í byrjun júnímánaðar, hefur gengi krónunnar hins vegar lækkað nokkuð. Það ýtir ekki undir stýrivaxtalækkun. Það sama á og við þróun verðbólgunnar, en hún jókst nokkuð í júnímánuði frá mánuðinum á undan, að því er fram kom í Morgunblaðinu í dag.