Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ljóst að Seðlabankinn hafi enga trú á aðgerðum ríkisstjórnarinnar og allt bendi til þess að ekki takist að ná stýrivöxtum niður fyrir 10% fyrir 1. nóvember nk. líkt og kveðið er á um í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda.
„Ef Seðlabankinn lokar augunum fyrir öllu sem er að gerast í peningamálunum í kringum okkur, bæði ríkisfjármálum og öðru, þá hef ég enga trú á því."
Átti von á lækkun
Vilhjálmur segist hafa talið að stýrivextir yrðu lækkaðir í dag og að peningastefnunefndin sýni ekki mikinn kjark með því að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12%. Segir hann engar forsendur fyrir öðru en að lækka stýrivexti nú.
Segir hann að greinilegt að Seðlabankinn taki ekkert mark á því sem er að gerast í ríkisfjármálunum. „Síðan er Seðlabankinn að paufast með þessi gjaldeyrishöft sem allir vita að virka ekki og hafi aldrei virkað í nokkru landi í sögunni. Þeir hanga á þeim (gjaldeyrishöftunum) líkt og hundar á roði og ekki hjálpar það til og skemmir í raun fyrir."
Gengi krónunnar mun áfram vera lágt að sögn Vilhjálms og því verði ekki náð upp fyrr en alvöru fjárflæði fer í gang. Annað hvort með eðlilegri lánastarfsemi milli Íslands og annarra landa eða opnun á aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum. Jafnframt skipti máli að koma útflutningi í eðlilegt horf sem ekki gerist með gjaldeyrishöftunum.
„Seðlabankinn er greinilega fastur í þessum farvegi. Ég átti von á því að hann myndi brjótast út úr honum en það er greinilega ekki að gerast um þessi mánaðamót," segir Vilhjálmur.