Andvirði 170 milljarða króna liggur á gjaldeyrisreikningum einstaklinga og fyrirtækja í viðskiptabönkunum, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Í febrúar nam þessi upphæð 90 milljörðum króna.
Þessar tölur fengust ekki staðfestar hjá Seðlabankanum í gær. Jafnframt gáfu stjórnendur bankans loðin svör þegar þeir voru spurðir um stöður á þessum reikningum þegar forsendur stýrivaxtaákvörðunar voru kynntar í gær.
Þessi þróun er vísbending um að útflytjendur og aðrir sem áskotnast gjaldeyrir vilji ekki skipta honum yfir í krónur. Í staðinn liggja peningar á reikningum sem bera lága vexti.
Þetta er ein af nokkrum ástæðum fyrir því að krónan hefur ekki verið að styrkjast, jafnvel þótt vöruskipti við útlönd hafi verið hagstæð.