Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að útgerðin vilji ekki taka áhættu á að breyta erlendum gjaldeyri í krónur, þar sem erlend lán séu á gjalddaga í haust. Hann segir að hætta sé á að krónan lækki í haust, og fyrirtækið gæti því tapað gengisbreytingunum, ef það þarf að kaupa evrur í haust.
Í Morgunblaðinu í dag segir að gjaldeyrisreikningar í eigu einstaklinga og fyrirtækja hafi vaxið í 170 milljarða króna úr 90 milljörðum króna á fimm mánuðum. Þar sagði að svo virðist sem útflutningsfyrirtæki og aðrir sem fá erlendan gjaldeyri kjósi að geyma hann á nær vaxtalausum reikningum í stað þess að skipta gjaldeyri í krónur.
Svipuð staða hjá Vinnslustöðinni og undanfarin ár
Sigurgeir Brynjar segir að fyrirtæki eigi mikið af gjaldeyri á reikningum sem og íslenskar krónur. En tekur fram að staðan sé svipuð og undanfarin ár og segir að það sé ekkert óeðlilegt við þetta fyrirkomulag. Hann getur þess að greiðslu- og lausafjárstaðan sé ágæt.
Vegna árstíðabundna sveifla er minni útflutningur á haustin. Að auki kemur aukinn þrýstingur á að krónan lækki vegna þess að þá hefst innflutningur, að hans sögn.
Aðspurður hvort gjaldeyriseigendur séu að veðja á að gjaldeyrishöftum verði aflétt og að krónan muni falla í kjölfarið - og þar með gera erlenda mynt enn verðmeiri - telur hann það ekki fjarri lagi.