Bráðabirgðastjórn skipuð yfir SPM

Sparisjóður Mýrasýslu
Sparisjóður Mýrasýslu mbl.is/hag

Fjármálaeftirlitið hefur skipað þriggja manna bráðabirgðastjórn yfir Sparisjóði Mýrasýslu sem fer ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum sparisjóðsins og stjórn og fundur stofnfjáreigenda Sparisjóðs Mýrasýslu hefði ella haft á hendi, að því er fram kemur á vef FME.

Í bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Mýrasýslu eru skipuð: Sigurður R. Arnalds, hrl., formaður, Jón Haukur Hauksson, hdl. og Margrét Gunnlaugsdóttir, hdl.

Tap af rekstri samstæðu SPM nam 21,2 milljörðum á síðasta ári og var eigið fé sparisjóðsins neikvætt um 15,1 milljarð samkvæmt efnahagsreikningi og eiginfjárhlutfall neikvætt um 32,1% hjá samstæðunni. Samkvæmt lögunum má hlutfallið ekki vera lægra en 8% og því uppfyllir sparisjóðurinn ekki skilyrði laga.

Í Morgunblaðinu í síðasta mánuði kom fram að kröfuhafar SPM munu eignast 2,5 til 3,0 prósenta hlut í Nýja Kaupþingi ef nauðungarsamningar verða samþykktir. Á meðal þeirra eru þrír þýskir bankar. Þann 27. mars samþykktu stærstu kröfuhafar SPM tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu hans. Á grundvelli þess samkomulags seldi SPM allar eignir sínar til Nýja Kaupþings, en þær eru fyrst og fremst innlán og eignarhald á minni sparisjóðum víðsvegar á landinu sem SPM hafði tekið yfir á undanförnum árum. Nýja Kaupþing átti síðan að greiða fyrir það með hlutafé í sjálfum sér og útgáfu skuldabréfs fyrir það sem upp á vantaði. Heimildir Morgunblaðsins herma að gert sé ráð fyrir að kröfuhafarnir fái um 65 prósent krafna sinna greiddar miðað við þessa framsetningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK