Fyrirtæki í fjármálahverfi Lundúnaborgar reyna nú að aðstoða starfsmenn sína við skattaundanskot en nýverið var ákveðið að leggja á nýjan hátekjuskatt í Bretlandi. Er talið að þetta þýði að fyrirtæki breyti launagreiðslum að einhverju leyti í það form að starfsmenn eignist hlut í fyrirtækjum og greiði starfsmenn þannig mun lægri tekjuskatt.
Á vef Times kemur fram að endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton hafi sent viðskiptavinum sínum upplýsingar um hvernig þau geti aðstoðað starfsmenn við að skjóta tekjum undan skatti með þessum hætti.
Síðar í vikunni er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra Bretlands, Alistair Darling, kynni til sögunnar frumvarp sem miði að því að draga úr háum bónusgreiðslum fjármálafyrirtækjanna.