Miðað við þær viðskiptaáætlanir sem liggja fyrir er gert ráð fyrir að 280 milljarðar króna verði settir í nýju bankana fyrir hinn 17. júlí næstkomandi en stefnt er að því að ljúka fjármögnun þeirra fyrir þann tíma, að sögn Gunnars Þ. Andersen, forstjóra FME.
Um er að ræða tölur sem byggja á viðskiptaáætlunum og eru því ekki endanlegar.
Helga Valfells, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, sagði á fundi í Þjóðmenningarhúsinu um endurreisn bankakerfisins að ekki væri útilokað að erlendir kröfuhafar kæmu að nýju bönkunum sem eigendur.
Í samningaviðræðum við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna hefur ekkert komið fram um hugsanlega málsókn þeirra á hendur íslenska ríkinu vegna setningu neyðarlaganna, að sögn Helgu. Erlendu kröfuhafarnir hefðu þó ekki viljað skrifa undir neitt sem útilokaði slíka málshöfðun.
Helga sagði að viðræðum við erlenda kröfuhafa miðaði vel. Þótt viðræðunum yrði ekki lokið fyrir 17. júlí myndi ríkið samt ljúka endurfjármögnun bankanna.