Gjaldeyrishöftin hafa reynst mikill hvalreki fyrir svokallaða „haftamiðlara“, sem beita margvíslegum brögðum til að hagnast á þeim mun sem er á gengi krónunnar í Seðlabankanum annars vegar og í erlendum bönkum hins vegar.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa einstakir aðilar hagnast um hundruð milljóna króna með þessum hætti og eru vísbendingar um að glæpamenn séu farnir að líta á gjaldeyrisbrask sem sjálfstæða tekjulind.
Mikilvægt er að gera greinarmun á löglegum gjaldeyrisviðskiptum og ólöglegum, en fjölmargir aðilar hafa heimild til kaupa á gjaldeyri á gengi Seðlabankans.
Braskararnir leita uppi þá sem hafa slíkar heimildir, eða fá slíka heimild sjálfir, og geta á skömmum tíma grætt morð fjár, enda er 20% munur á gengi krónunnar hér og erlendis.
Þá eru dæmi þess að menn hafi safnað saman greiðslukortum Íslendinga, farið með þau til útlanda og tekið eins mikið og hægt hefur verið út úr hraðbönkum. Þegar íslensk kort eru notuð erlendis er notað gengi Seðlabankans. Fénu er svo skipt í krónur úti og þær fluttar heim aftur.
Þá hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að hart hafi verið lagt að íslenskum námsmönnum erlendis að nýta sér heimildir til að taka út gjaldeyri á seðlabankagenginu og bjóðast braskar þá til að fjármagna úttektirnar.