Sænski bankasérfræðingurinn Mats Josefsson, formaður nefndar um endurreisn fjármálakerfisins, sagði á fundi í Þjóðmenningarhúsinu að ekki væri útilokað að eignaumsýslufélög bankanna yrðu færð undir eitt félag.
Bankasýsla ríkisins er sem stendur stofnun en að mati Josefsson væri æskilegra að stofnunin yrði einkahlutafélag eða sjóður.
Josefsson sagði að með hruni bankanna hefði ríkið orðið eigandi þeirra með sömu skyldum og ábyrgðum og einkaaðili. Ríkisstjórninni hefði hins vegar mistekist að uppfylla skyldur sínar sem eigandi og að það hefði seinkað endurskipulagningu bankanna.
Mikilvægt að takmarka pólitísk afskipti
Josefsson sagði mikilvægi Bankasýslu ríkisins ótvírætt til að takmarka pólitísk afskipti af rekstri bankanna. Bankasýslan myndi skipa stjórnir bankanna á grundvelli ráðlegginga frá sérstakri valnefnd. Þessar stjórnir yrðu síðan æðsta ákvörðunarvald í málefnum bankanna. Bankasýsla ríkisins myndi leggja bönkunum til eigið fé, en eitthvað fjármagn yrði þó eftir í stofnuninni.
Um væri að ræða fyrirkomulag sem hefði reynst vel annars staðar, t.d Noregi.
Josefsson sagði að fjármálaráðuneytið myndi leggja bönkunum til eigið fé ef ekki tækist að koma Bankasýslu ríkisins á laggirnar í tæka tíð, sömu reglur myndu samt gilda. Josefsson sagði að það væri algjört lykilatriði að fagmennsku yrði gætt við skipun stjórnarmanna nýju bankanna og við ráðningu starfsfólks. Ef þetta yrði pólitískt myndi ekki mikill árangur nást.
Það er markmið stjórnvalda að ljúka fjármögnun nýju bankanna hinn 17. júlí næstkomandi. Óvíst er hins vegar hvort það takist að stofna Bankasýslu ríkisins fyrir þann tíma.