Sjóvá átti ekki fyrir vátryggingaskuld sinni og leggja þurfti félaginu til fé svo það gæti staðið undir henni. Það er helsta ástæða þess að sérstakur saksóknari rannsakar nú hvort færsla á fjárfestingaeignum úr móðurfélaginu Milestone inn í Sjóvá á síðastliðnum tveimur árum varði við lög um hlutafélög, lög um starfsemi tryggingafélaga eða séu umboðssvik. Húsleitir voru framkvæmdar vegna rannsóknarinnar á tíu stöðum í gær. Meðal annars var leitað í höfuðstöðvum Milestone og Sjóvá og á heimilum helstu stjórnenda félaganna tveggja.
Milestone eignaðist Sjóvá að fullu í byrjun árs 2006. Á næstu tveimur árum voru færðar fjárfestingaeignir inn á efnahagsreikning félagsins sem bókfærðar voru sem 50 milljarða króna virði. Þessum eignum fylgdu vaxtaberandi skuldir að upphæð um 40 milljarðar króna. Þorri þeirra skulda var í erlendum gjaldmiðlum. Bæði fjárfestingarnar og vaxtaberandi skuldirnar voru geymdar í dótturfélagi Sjóvár sem var stýrt af félaginu Milestone.
Þegar hrun varð á fasteignamarkaði á síðasta ári og íslenska krónan hrundi á sama tíma þá lækkaði virði fjárfestingaeigna Sjóvár afar mikið á sama tíma og skuldirnar ruku upp. Þetta varð til þess að skilanefnd Glitnis þurfti að setja háar upphæðir inn í Sjóvá til að félagið gæti staðið við vátryggingaskuld sína. Heimildir Morgunblaðsins herma að sú upphæð hafi numið allt að tíu milljörðum króna.