Grindavíkurbær vill taka út þær innstæður sem hann á í Sparisjóði Keflavíkur (SpKef), en þær nema rúmum þremur milljörðum króna, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Grindavík lagði féð, sem er söluvirði þess hlutar sem bærinn seldi í Hitaveitu Suðurnesja fyrir tveimur árum, inn í SpKef síðastliðið haust, en sjóðurinn stóð þá afar illa í kjölfar hruns íslenska bankakerfisins. Nú vilja Grindvíkingar færa féð en heimildir Morgunblaðsins herma að enn hafi ekki verið orðið við þeirri umleitan.
Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri Grindavíkur, vill ekki tjá sig efnislega um málið. „Það er ekkert launungarmál að við erum með háa innstæðu í SpKef, en ég vil ekki tjá mig frekar um það mál, enda höfum við ekki verið að tjá okkur opinberlega um vörslu fjármuna okkar.“