Íslandsbanki segir í yfirlýsingu að bankinn sé með ekki beint eignarhald að Geysi Green Energy (GGE).
Fagfjárfestasjóðurinn Glacier Renewable Energy Fund á um 40% hlut í fyrirtækinu og tvo fulltrúa af sjö í stjórn. Íslandsbanki á innan við helmingshlut í sjóðnum á móti öðrum fagfjárfestum, segir í yfirlýsingunni.
DV fjallaði í dag um GGE og tengsl Íslandsbanka við félagið. Þar kom fram að menn úr S-hópnum svonefnda reyni ásamt öðrum hluthöfum reyni að halda undirtökunum í fyrirtækinu. Aukin heldur er bent á að Árni Magnússon, sem fór fyrir orkuútrás bankans og fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, starfi fyrir Íslandsbanka.
Kom fram að stærsti eigandi GGE sé fjárfestingafélagið Atorka (41%), sem er í greiðslustöðvun. Í fréttinni segir að aðaleigandi Atorku, Þorstein Vilhelmsson, eigi hauk í horni í Íslandsbanka; son sinn Vilhelm, sem er forstöðumaður fyrirtækjasviðs bankans. Þorsteinn situr í stjórn GGE, ásamt forstjóra Atorku, Magnúsi Jónssyni.
Í yfirlýsingu Íslandsbanka segir að hjá bankanum gilda afar strangar hæfisreglur um aðkomu starfsmanna og stjórnenda að einstaka málum sem bankinn fylgir í einu og öllu. „Aðdróttanir um annað eru úr lausu lofti gripnar. Þá skal einnig áréttað starfsmenn Íslandsbanka hafa að sjálfsögðu haldið bankastjórn bankans upplýstri um aðkomu hans að málefnum Geysis Green Energy,“ segir í yfirlýsingunni.
DV segir að vald Íslandsbanka yfir GGE helgast ekki síður af því að félagið skuldar bankanum háar fjárhæðir, samkvæmt fréttinni.
„Íslandsbanki er viðskiptabanki Geysis Green Energy og vinnur náið með stjórnendum fyrirtækisins að fjárhagslegri endurskipulagningu þess en getur, eðli málsins samkvæmt, ekki tjáð sig að öðru leyti um málefni fyrirtækisins fremur en annarra viðskiptavina,“ segir í yfirlýsingu bankans.