Vilja fresta réttarhöldum um UBS

Reuters

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Sviss hafa óskað eftir því að réttarhöldum vegna svissneska bankans UBS verði frestað um þrjár vikur. Tilgangur réttarhaldanna er að þvinga svissneska bankarisann til að upplýsa um þúsundir aflandsreikninga í eigu bandarískra viðskiptavina.

Réttarhöldin áttu að hefjast á morgun, mánudag, en dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum, UBS og svissneska ríkisstjórnin hafa óskað eftir frestun til 3.ágúst. Málið er talið munu verða prófsteinn á baráttu skattayfirvalda við langa hefð bankaleyndar í Sviss.

Bandarísk yfirvöld vilja að dómstóll kveði úr um að UBS þurfi að afhenda nöfn bandarískra reikningseigenda á þeim forsendum að svissneski bankinn hafi „kerfisbundið og vísvitandi“  brotið bandarísk lög. Allt að 52 þúsund bandarískir skattgreiðendur eiga bankareikning hjá UBS utan landsteinanna og komast þannig hjá því að greiða skatta í heimalandi sínu.

Svissnesk yfirvöld standa hins vegar með UBS og segja málið til þess fallið að valda milliríkjadeilum, með því að neyða UBS til að brjóta svissnesk lög. Dómsmálayfirvöld í Bandaríkjunum krefjast þess að dómari láti hótanir frá Sviss ekki hafa áhrif á úrskurðinn. Erlend ríki skuli ekki að vild láta banka sína og fyrirtæki, sem stundi viðamikil viðskipti í Bandaríkjunum, komast hjá því að láta af hendi upplýsingar sem tengjast rannsóknum á glæpum.

Dómarinn hefur ekki ákveðið hvort orðið verður við óskum um frestun.

Tæp 27 þúsund mann starfa hjá UBS í Bandaríkjunum, en 26 þúsund manns starfa hjá bankanum í Sviss.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK