Fimm lífeyrissjóðir sem voru í eignastýringu hjá Landsbankanum eru grunaðir um að hafa fjárfest um of í verðbréfum tengdum Landsbankanum og eigendum þeirra og gefið Fjármálaeftirlitinu (FME) rangar skýrslur um það. Búið er að yfirheyra fjölda manns í tengslum við rannsóknina, sem staðið hefur yfir frá því í mars, en rannsóknin beinist fyrst og fremst að þeim sem stýrðu eignum sjóðanna.
Um er að ræða Íslenska lífeyrissjóðinn, Lífeyrissjóð Eimskipafélags Íslands, Lífeyrissjóð Tannlæknafélagsins, Eftirlaunasjóð íslenskra atvinnuflugmanna og Kjöl, lífeyrissjóð og var skipaður umsjónaraðili yfir þeim öllum vegna rannsóknarhagsmuna í vor. Fjármálaráðuneytið hefur framlengt skipan umsjónaraðila Íslenska lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs Eimskipafélags Íslands, en hinum þremur hefur verið skilað til réttkjörinna stjórna. Meint brot áttu sér stað á fyrri hluta árs 2008.