Væntanlega mun eignarhaldið á íslensku bönkunum þremur, Íslandsbanka, Nýja Kaupþingi og Nýja Landsbankanum, skýrast á morgun. Fullyrt hefur verið að allar líkur séu á því að erlendir kröfuhafar muni eignast Nýja Kaupþing beint og þá jafnvel bandarískir vogunarsjóðir. Heimildir mbl.is herma að svo sé ekki.
Fyrir fall Kaupþings gengu skuldabréf bankans kaupum og sölum en eignarhald skuldabréfanna var dreift víða um heim.
Heimildir mbl.is herma að þrátt fyrir að einhver viðskipti séu enn með skuldabréf bankans sé eignarhaldið enn fjölbreytt. Rétt er að taka fram að ef samkomulag næst á milli ríkisins og skilanefndar Kaupþings um að hlutafé Nýja Kaupþings verði að einhverju eða öllu leyti í eigu gamla Kaupþings yrði eignarhald kröfuhafa einungis óbeint í gegnum gamla Kaupþing.
Þann 30. júní hófst sex mánaða tímabil þar sem kröfuhöfum Kaupþings gafst kostur á að lýsa kröfum í búið. Ekki verður ljóst fyrr en um næstu áramót hverjir gerðu kröfur í búið en útistandandi kröfur nema þúsundum milljörðum króna ef allt er talið með. Síðan getur tekið enn lengri tíma að fara yfir kröfurnar, vega þær og meta. Ekki verður ljóst fyrr en að því loknu hvernig kröfuhafahópur bankans lítur út.
Stefnt er að því að fjármagna nýju ríkisbankana á morgun. Til stendur að leggja þeim til 280 milljarða króna í eigin fé. Ekki hafa fengist upplýsingar um skiptinguna. Það er ljóst að ef samkomulag næst við skilanefndir einhverja af gömlu bönkunum um að þeir eignist nýju bankanna að hluta eða að öllu leyti mun fjárframlag ríkisins lækka til muna.