Hæstaréttarlögmennirnir Karl Georg Sigurbjörnsson og Björn Þorri Viktorsson fengu 400 milljóna króna lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar árið 2006 til þess að kaupa fasteign í Lettlandi, að því er fram kemur í DV í dag.
Í frétt DV segir að upphæð lánsins hafi numið 4 milljónum evra og hefur blaðið eftir heimildum að Byr þurfi að afskrifa hátt í einn milljarð króna vegna þess. Samkvæmt upplýsingum mbl.is nam lánið 3,2 milljónum evra og ekkert hefur verið afskrifað vegna þess.
Björn Þorri hefur unnið fyrir stofnfjáreigendur í Byr sem vilja hnekkja meintri ólögmætri setu Matthíasar Björnssonar, stjórnarmanns í Byr, en stofnfjáreigendurnir telja að stjórnin hafi ekki verið löglega kjörin á aðalfundi Byrs hinn 13. maí sl. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði í byrjun júlí kröfu stofnfjáreigendanna um lögbann á stjórnarsetu Matthíasar.
Björn Þorri skrifaði greinargerð stofnfjáreigendanna en Karl Georg mætti fyrir hönd þeirra til Sýslumannsins í Reykjavík þegar beiðni um lögbann var tekin fyrir, að sögn Matthíasar Björnssonar, stjórnarmanns í sparisjóðnum. Matthías segist ekki tjáð sig um lánveitingar til Björns Þorra og Karls Georgs þar sem hann þekki ekki til þeirra.
Björn Þorri og Karl Georg áttu félagið Adminu iela 4 SIA ásamt lettneska lögmanninum Marcis Mikelsons. Nafni félagsins var síðar breytt í Beta 4 SIA. Í frétt DV segir að Mikelsons sé þekktur verjandi mafíuforingja í lettlandi.