Arðgreiðsla Sjóvár til eigenda sinna á árinu 2007 var 170 prósent af hagnaði félagsins það árið. Milestone, fyrrverandi eigandi Sjóvár, fékk 7,3 milljarða króna í arð á sama tíma og hagnaður Sjóvár, sem samanstóð af trygginga- og fjárfestingarekstri, var 4,3 milljarðar kr.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu (FME) er heimilt að taka af eigin fé, með greiðslu arðs, sem nemur óráðstöfuðum hagnaði fyrri ára, ef þess er gætt að ganga ekki á hlutafé félagsins, lágmarksgjaldþol og eignir til jöfnunar vátryggingaskuld. Í lok síðasta árs uppfyllti Sjóvá ekki kröfur um lágmarksgjaldþol né átti félagið eignir til að jafna vátryggingaskuld. Samtals voru greiddir um 19,5 milljarðar króna í arð út úr Sjóvá árin 2005-2007.
Líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær var tap á fjárfestingastarfsemi Sjóvár á síðasta ári 35,5 milljarðar króna.
Málefni Sjóvár eru sem stendur til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara eftir að Fjármálaeftirlitið (FME) vísaði þeim þangað. Áður hafði FME verið með málið til skoðunar frá apríl 2008.