271 milljarður í bankana

Frá blaðamannfundinum í Þjóðmenningarhúsinu
Frá blaðamannfundinum í Þjóðmenningarhúsinu mbl.is/Eggert

„Með þessu samkomulagi er lagður grundvöllur að sátt við kröfuhafana. Við erum að lágmarka mjög kostnað ríkisins og skattgreiðenda vegna falls bankanna,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra um samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna, en blaðamannafundur stendur nú yfir í Þjóðmenningarhúsinu þar sem samkomulagið er kynnt. 

Samkomulagið felur í sér að erlendir kröfuhafar verða eigendur að Íslandsbanka og Kaupþingi en ríkið mun áfram halda utan um Landsbankann. 

Ríkið mun setja 271 milljarð króna inn í bankana hinn 14. ágúst næstkomandi. Samkomulag við kröfuhafana er háð samkomulagi FME og áreiðanleikakönnun nýrra eigenda. 

Landsbankinn

Uppgjörið milli gamla og nýja bankans verður klárt 14. ágúst. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að ríkið muni leggja bankanum til 140 milljarða. Stærstu kröfuhafar bankans eru innlánskröfur sem liggja hjá stjórnvöldum þriggja landa.

Glitnir/Íslandsbanki

Glitni gefst kostur á að eignast allt hlutafé í Íslandsbanka. Áður mun ríkið þó leggja bankanum til 60 milljarða króna hlutafé sem Glitnir mun síðan kaupa af ríkinu ef félagið ef ákveður að eignast hlutina í Íslandsbanka.

Kaupþing

Í nýja Kaupþingi mun gamla Kaupþingi gefast kostur á að eignast tæplega 90% hlut í bankanum á móti ríkissjóði. Áður mun þó ríkið leggja félaginu til 70 milljarða króna í hlutafé.

Steingrímur J. segir að erlendir vogunarsjóðir séu ekki stærstu kröfuhafar föllnu bankanna, ólíkt því sem áður hefði komið fram. Þetta séu aðallega stórir erlendir bankar.

Steingrímur segir að þetta takmarkaði áhættu ríkisins. Ríkið stæði ekki lengur á bak við bankakerfið sem eigandi. Viðbrögðin væru almennt góð. „Það má strax sjá af alþjóðlegri umfjöllun um þetta. Stærstu fjölmiðlar og erlendar fréttaveitur hafa fjallað um þetta með mjög jákvæðum hætti," segir Steingrímur. 

Þorsteinn Þorsteinsson, sem hefur stýrt viðræðum við erlendu kröfuhafanna, sagði að gömlu bankarnir myndu smám saman þróast í einhvers konar eignastýringarfyrirtæki og halda utan um eignarhlutina um nokkurra ára skeið. 

Allir helstu fjölmiðlar í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa í gærkvöldi og í dag fjallað um samkomulagið við skilanefndir bankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka