Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var í viðtali hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNBC nú síðdegis, í tilefni af samkomulagi stjórnvalda og skilanefnda bankanna.
Hann sagðist hafa trú á að kröfuhafar gengju sáttir frá borði enda hefði verið samið við fulltrúa þeirra. Þessa skrefs hefði lengi verið beðið og þátttaka erlendra kröfuhafa í endurreisn bankakerfisins, auðveldaði endurkomu inn á erlenda fjármálamarkaði.
Spurður um endurreisn bankakerfisins sagði Steingrímur aðalatriðið að byggja upp heilbrigt bankakerfi fyrir heimamarkaðinn.
Lykilatriði fyrir bankana væru fjármögnun, að þeir væru fullkomlega starfhæfir og með sterkan efnahagsreikning.
Endurreisn íslensks efnahagslífs byggðist á því að það tækist að styrkja útflutningsgreinarnar.
Um það hvernig fjármögnun bankanna tækist með hliðsjón af gríðarlegum skuldum sem gætu komið til vegna Icesave, sagði Steingrímur að líklega færu ekki þeir 200 milljarðar króna í greiðslu eins og fyrst var gert ráð fyrir. Upphæðin væri því enn lægri en þeir 385 milljarðar sem lagt var upp með í fyrstu.