Fjármálaeftirlitið hefur sent frá sér upplýsingar um arðgreiðslur íslensku tryggingafélaganna þrjú ár aftur í tímann. Þar kemur fram að ekkert þeirra hafi greitt arð fyrir árið 2008 enda nam samanlagt tap þeirra á tímabilinu 47,3 milljörðum króna.
Árið 2006 nam samanlagður hagnaður tryggingafélaganna þriggja, það er Sjóvár, Tryggingamiðstöðvarinnar og VÍS 17,7 milljörðum en arðgreiðslurnar námu 9,8 milljörðum eða 55% af hagnaði. Árið 2007 nam hagnaður þeirra 19,4 milljörðum króna en arðurinn var 2,1 milljarður króna, eða 11% af hagnaði.
Segir á vef FME að vegna fréttaflutnings í fjölmiðlum um helgina um arðgreiðslur vátryggingafélaga og hlutfall þeirra af hagnaði, telur Fjármálaeftirlitið rétt að birta upplýsingar um hagnað og arðgreiðslur þriggja stærstu vátryggingafélaganna vegna áranna 2006-2008.
Þegar arðgreiðslur eru bornar saman við hagnað er rétt að hafa í huga að ákvörðun um arðgreiðslur er tekin á aðalfundum vátryggingafélaga og er þá miðað við afkomu ársins á undan. Þannig voru til dæmis arðgreiðslur vegna ársins 2006 ákveðnar á aðalfundum félaganna í ársbyrjun 2007 þegar árið 2006 var gert upp.
Rétt er einnig að hafa í huga að samkvæmt lögum um vátryggingastarfsemi er heimilt að greiða yfirfærðan hagnað frá fyrri árum, enda sé ljóst að félagið uppfylli kröfur um tilskilið lágmarksgjaldþol, þess hafi verið gætt að leggja til hliðar nægilegt fé fyrir vátryggingaskuld félagsins, svo og að settum reglum um mat á eignum félagsins og fyrningu þeirra hafi verið fylgt, að því er segir á vef FME.
TM greiddi 144% af hagnaði ársins 2006 út í arð
Sjóvá Almennar greiddi út 61% af hagnaði í arð árið 2006, eða 7,3 milljarða af 11,9 milljarða króna hagnaði.
Tryggingamiðstöðin greiddi sama ár út mun meiri arð heldur en hagnaðurinn var, arðgreiðslan nam 999 milljónum króna á meðan hagnaðurinn var ekki nema 696 milljónir króna.
VÍS greiddi 1,5 milljarða í arð árið 2006 sem er 29% af hagnaði ársins sem nam 5 milljörðum króna.
Tryggingamiðstöðin eina félagið sem greiddi út arð fyrir 2007
Árið 2007 var Tryggingamiðstöðin eina félagið sem greiddi út arð eða 48% af hagnaði ársins. Nam arðurinn 2,1 milljarði króna á meðan hagnaðurinn var 4,4 milljarðar króna. Hagnaður Sjóvár nam 4 milljörðum en enginn arður var greiddur út og hagnaður VÍS nam 11 milljörðum króna og enginn arður var greiddur út.
Samanlagt tap TM á tímabilinu 2006 til 2008 nam 12.537 milljónum króna en fyrirtækið greiddi út 3.099 milljónir króna í arð á tímabilinu.
Samanlagt tap Sjóvár á tímabilinu nam 13.976 milljónum króna en félagið greiddi alls út 7.300 milljónir út í arð.
Samanlagður hagnaður VÍS nam 16.320 milljónum króna en félagið greiddi einungis út arð fyrir árið 2006, 1.500 milljónir króna.