Glitnir eignast Íslandsbanka

Samkomulag hefur náðst um að Glitnir eignist Íslandsbanka og með þessu gæti Íslandsbanki komist  í eigu erlendra aðila innan tíðar. Samkvæmt samkomulagi ríkisins og kröfuhafa mun ríkið leggja bankanum fyrst til nýtt eigið fé sem kröfuhöfum gefst kostur á að eignast fyrir 30. september nk. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ríkið mun jafnframt leggja bankanum til fé í formi víkandi láns sem styrkir eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans. Hefur ríkið skuldbundið sig til að veita bankanum 25 milljarða í lausafé.
 
Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að mikil vinna hefur farið fram af hálfu starfsmanna Íslandsbanka og skilanefndar Glitnis á undanförnum mánuðum í tengslum við samningaviðræðurnar. 

„Með erlendu eignarhaldi mun Íslandsbanki aftur verða beintengdur alþjóðlegu fjármálakerfi en meðal kröfuhafa Glitnis eru margar af öflugustu fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu. Aðkoma erlendra kröfuhafa mun stuðla að bættum aðgangi bankans að alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem mun gera bankanum betur kleift að þjóna viðskiptavinum sínum enn betur í framtíðinni. Þetta er einnig mikilvægur þáttur fyrir framtíðaruppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármálakerfis," samkvæmt tilkynningu frá Íslandsbanka.

Starfsmönnum hefur fækkað um 400

Mikil hagræðing hefur átt sér stað á bankanum og forvera hans frá því í byrjun árs 2008 og hefur starfsmönnum bankans á Íslandi fækkað úr um 1300 í tæplega 900. Hjá bankanum starfa nú jafnmargir starfsmenn og árið 2003 en efnahagsreikningur bankans er í dag þriðjungi stærri en hann var þá,  segir enn fremur í tilkynningunni.

Liggur ljóst fyrir í lok september

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis, segir í fréttatilkynningu: „Við í skilanefnd Glitnis erum ánægð með að hafa náð samningum við ríkisvaldið sem við teljum að tryggi kröfuhöfum í senn hámarksréttindi og valkosti sem þeir geta tekið afstöðu til að lokinni áreiðanleikakönnun sem fram fer á næstu vikum.“
 
„Með samningnum hefur skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, öðlast rétt til að eignast Íslandsbanka að öllu leyti án þess að leggja til frekari fjármuni og ríkið hefur ennfremur skuldbundið sig til að veita bankanum 25 milljarða lausafjárstuðning. Með þessu teljum við að bankinn sé að fullu fjármagnaður og að lausafé hans sé tryggt um fyrirsjáanlega framtíð.“
 
„Verði það niðurstaða kröfuhafa eftir að áreiðanleikakönnun hefur farið fram, að í stað þess að eignast Íslandsbanka að fullu strax,  þá telji þeir sig betur setta að eignast skuldabréf og kauprétt að allt að 90% af hlutafé bankans á næstu fimm árum, þá er sá valkostur einnig fyrir hendi. Tekin verður ákvörðun um þetta með hag lánadrottna að leiðarljósi fyrir 30. september næst komandi.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka