„Við erum eiginlega að ljúka þessu með einu höggi,“ segir Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, um samkomulag stjórnvalda og skilanefnda föllnu bankanna þriggja, en blaðamannafundur stendur nú yfir í Þjóðmenningarhúsinu þar sem samkomulagið er kynnt.
Stærstu kröfuhafar Glitnis eru skuldabréfaeigendur og meðal þeirra eru stærstu bankar í Evrópu og Bandaríkjunum, að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis.
Steinar Þór Guðgeirsson segir að stærstu kröfuhafar Kaupþings séu evrópskir bankar, um er að ræða skuldabréfaeigendur. Hann segir að ekki sé hægt að nafngreina kröfuhafana fyrr en að loknum kröfulýsingarfresti, en frestur kröfuhafanna til að lýsa kröfum á skilanefnd Kaupþings rennur út í haust.