Álverð hefur hækkað verulega frá lokum fyrsta ársfjórðungs og er nú á svipuðum slóðum og fyrir fjórum árum síðan. Í millitíðinni þandist út verðbóla á hrávörumörkuðum sem síðan sprakk með nokkrum hvelli á haustdögum í fyrra. Áltonnið var selt í London á 1.711 Bandaríkjadali í lok gærdags, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Frá mánaðamótum hefur verð á áli hækkað um 5%, en það sem af er ári nemur hækkunin ríflega 11%. Jákvæðir straumar frá hækkandi hlutabréfaverði og aukinn áhugi hrávörusjóða eru meðal helstu ástæðna hækkunarinnar síðustu daga, en á sama tíma lækkuðu flestir iðnaðarmálmar í verði.