Nýherji skilar 90 milljóna hagnaði

Höfuðstöðvar Nýherja í Borgartúni.
Höfuðstöðvar Nýherja í Borgartúni.

Hagnaður á rekstri Nýherja á fyrri helmingi ársins nam 90,5 milljónum króna eftir skatta og fjármagnsliði. Rekstrartap fyrirtækisins nam hins vegar 793,4 milljónum. Fasteignir félagsins, einkum eign í Borgartúni, voru endurmetnar og færðar á markaðsvirði í bækur. Munurinn á bókfærðu virði fasteignanna var 813,7 milljónir. Af þeirri upphæð er greiddur 122 milljóna króna tekjuskattur og afgangurinn færður til hækkunar á eigin fé.

„Samkvæmt þeim alþjóðlegu reikningsskilareglum, sem við fylgjum, er gert ráð fyrir því að fram geti farið reglulegt endurmat á eignum. Ekki hafði farið fram endurmat á fasteigninni í Borgartúni frá árinu 2003 og var verðmatið, sem nú fór fram frekar varlegt,“ segir Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja.
„Þá er rekstrartap á tímabilinu hærra en ella vegna þess að við færðum viðskiptavild niður um 180 milljónir króna og skattainneign um 150 milljónir.“

Eignir Nýherja voru í júnílok 10.173 milljónir króna, en voru í ársbyrjun 9.952 milljónir. Eigið fé fór úr 1.964 milljónum í 2.050 milljónir og skuldir hækkuðu úr 7.988.468 milljónum í 8.123 milljónir.

Fækkunin kemur fram í einkageiranum

Þórður segir aðstæður og rekstrarskilyrði afar erfið. „Margir viðskiptavinir okkar hafa haft hug á að ráðast í ýmis verkefni, en vegna óvissu í efnahagslífinu og takmarkaðs aðgangs að fjármagni er ákvörðunum slegið á frest, sem hefur leitt til verulegs samdráttar í verkefnum hugbúnaðarsérfræðinga og ráðgjafa.“ Segir hann að opinber fyrirtæki og stofnanir hafi skorið niður aðkeypta sérfræðiþjónustu á ýmsum sviðum og annast verkefni með eigin starfsmönnum. „Kemur því ekki til fækkunar hjá hinu opinbera, en fækkun starfsmanna kemur fram hjá einkafyrirtækjum.“

Segir hann að ekki sé mikill tími til stefnu. „Náist ekki vendipunktur brátt er hætta á að sú fjárfesting í nýsköpun og þróun sem ráðist hefur verið í á liðnum misserum á sviði hugbúnaðar og tækni rýrni og kunni að glatast hérlendis.“ Bendir hann á að um 3% starfsmanna Nýherjasamstæðunnar hafi þegar flutt úr landi eða eru við það að flytja.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK