Sala á nýjum íbúðum jókst um 11% í Bandaríkjunum í júní og þykir þetta enn eitt merkið um að ríkið sé að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppu undanfarna mánuði. Alls seldust 384 þúsund nýbyggðar íbúðir í júní og er það talsvert meiri sala heldur en spár hljóðuðu upp á. Í maí seldust 346 þúsund nýjar íbúðir í Bandaríkjunum.
Hins vegar er salan mun minni heldur en í júní í fyrra eða 21,3% minni. Þrátt fyrir að fleiri nýjar íbúðir hafi selst í júní en í maí þá lækkaði verðið á þeim. Að meðaltali voru íbúðir seldar á 206.200 dali í júní en í fyrra var meðalverðið 219 þúsund dalir. Eins höfðu íbúðirnar verið mjög lengi á sölu eða að meðaltali í 11,8 mánuði sem er nýtt met hvað lengd varðar.